Show MenuHide Menu

Samgöngubætur í Reykjavík

Reykvíkingar hafa um langt árabil verið sveltir þegar kemur að fjárveitingum til vegamála, en stór hluti stofnbrauta á höfuðborgarsvæðinu eru svokallaðir þjóðvegir í þéttbýli. Árið 2011 námu fjárframlög ríkisvaldsins til viðhalds og nýframkvæmda á þessu svæði um eitt hundrað milljónum króna, sem var aðeins um eitt prósent af heildarvegafé það ár, en sömu sögu er að segja um árin 2009 og 2010.

Nú hefur verið gengið enn lengra og ríkisvaldið samið við Reykjavíkurborg um að ekki verði ráðist í neinar vegaframkvæmdir í borginni næsta áratuginn, eða fram til ársins 2022. En jafnvel þó ekki kæmu til neinar nýframkvæmdir mun alltaf verða mikil þörf á viðhaldi vega og eftir því sem þeim framkvæmdum er slegið á frest margfaldast framtíðarkostnaðurinn, auk þess sem umferðaröryggi hríðversnar.

Á umliðnum árum hefur verið ráðist í margvíslegar vegaframkvæmdir á landsbyggðinni sem stundum er vandséð að nokkur þörf sé á. Á sama tíma eru Reykvíkingar afskiptir, þrátt fyrir að á höfuðborgarsvæðinu búi meginþorri þjóðarinnar og þrátt fyrir að þar sé brýnast að ráðast í framkvæmdir. Á árunum 2007 til 2011 urðu 18 prósent banaslysa í Reykjavík og 43 prósent annarra alvarlegra slysa, en þá er átt við slys sem leiða til varanlegs skaða eða örkumla. Ef litið er til annarra samgangna, þá hefur ótrúlegur árangur náðst í öryggismálum sjófarenda og flugfarenda og stundum líða nokkur ár án þess að nokkurt alvarlegt slys verði á sjó eða í lofti hér við land. Þar hefur sú stefna verið mörkuð að gera allt hvað hægt er til að afstýra slysum. Sama hugsunarhátt þarf að innleiða í umferðarmálum. Mikill meirihluti alvarlegra slysa verður á ljósastýrðum gatnamótum. Mislæg gatnamót bjarga því beinlínis mannslífum. Þá geta ýmsar minniháttar framkvæmdir aukið öryggi mikið, til að mynda bætt aðgengi fatlaðra, betri kantsteinar og greinilegri yfirborðsmerkingar. Einnig þarf víða að lagfæra skilti og annað sem hindrar útsýni.

Þá valda hinar miklu umferðartafir mengun með óþarfa eldsneytisbruna, tímamissi og öllum þeim kostnaði sem fylgir. Rétt er að líta á umferðina eins og aðrar veitur, vatnsveitu, hitaveitu og rafveitu. Við myndum seint sætta okkur við stopult rennsli á heitu og köldu vatni, eða þá að rafmagnið slægi reglulega út.

Meginverkefnið í samgöngumálum er að koma eðlilegri hreyfingu á umferð og bæta nýtingu á aðalstofnbrautunum, Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Sæbraut, þannig að öll umferðarljós hverfi í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá ættu tengingar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur yfir þessar æðar að vera eingöngu á brúm eða með göngum. Ýmsar nýjar vegtengingar þarf að leggja á næstu árum og áratugum, til að mynda Sundabraut yfir Elliðaárvog, sem síðan tengist Vesturlandsvegi, þá þarf tengingu suður fyrir Öskjuhlíð, svokallaðan Hlíðarfót. Skerjabraut í framhaldi af Suðurgötu yfir Skerjafjörðinn og á Álftanes gæti gert byggðina á Álftanesi að nokkurs konar viðbót við Vesturbæinn og létt á öðrum stofnbrautum. Hér eru aðeins nokkur dæmi nefnd um framkvæmdir, en við greiningu á umferðarvandanum og þörfinni fyrir framkvæmdir er brýnt að notast við þau fullkomnustu umferðarlíkön sem til staðar eru. Vandann þarf að greina fræðilega í stað þess að ætt sé af stað af hinu venjulega pólitíska fyrirhyggjuleysi.

Til mikils er að vinna, enda verður ekki lengur búið við þann þjóðhagslega skaða sem hlýst af umferðartöfum og við megum heldur aldrei sætta okkur við allt það alvarlega líkamstjón sem verður í umferðinni. Sinnuleysi í þessum málaflokki kostar beinlínis mannslíf.