Show MenuHide Menu

Reykvíkingar eiga betra skilið

Nú fyrir skemmstu birtist skýrsla nefndar sem falið var að gera úttekt á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Skýrslan er harður dómur yfir núverandi borgarstjórnarmeirihluta undir forystu Jóns Gnarrs borgarstjóra. Í henni er meðal annars gagnrýnt að það sé „valkvætt með hvaða hætti borgastjórinn, æðsti embættismaður borgarinnar, hagi aðkomu sinni að því að vera framkvæmdastjóri Reykjavíkurborgar“. Ljóst er að borgarstjórinn í Reykjavík fylgir ekki því sem fram kemur í 55. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um hlutverk framkvæmdastjóra sveitarfélaga, en svo sem kunnugt er hefur borgarstjórinn aðallega fengist við furðufatasýningar og önnur skringilegheit.

Þá gagnrýndi nefndin tíðar stjórnkerfisbreytingar hjá Reykjavíkurborg, sem hún telur að hafi dregið úr skilvirkni í stjórnsýslu borgarinnar og beinlínis aukið kostnað. Sem dæmi má nefna að þá hefur árlegur kostnaður við rekstur skrifstofu borgarstjóra þrefaldast frá kosningum. Borgarbúar eru orðnir langþreyttir á bruðlinu í rekstri borgarinnar. Skatttekjur Reykjavíkurborgar eru 32% hærri nú en þegar vinstrimeirihluti Jóns Gnarrs tók við völdum, hafa farið úr 50 milljörðum í ríflega 66 milljarða. Á sama tíma hefur engin hagræðing átt sér stað í kerfinu heldur bólgnar það út ár frá ári og er borgarsjóður í ofanálag rekinn með milljarða halla.

Hinar auknu álögur kosta dæmigerða fimm manna fjölskyldu 800 þúsund krónur aukalega á núverandi kjörtímabili. Inni í þeirri tölu eru hækkanir á gjaldskrám sem nema að meðaltali 20% á sama tíma og vísitala neysluverðs hefur aðeins hækkað um 13%. Borgaryfirvöld eiga því drjúgan þátt í að hækka afborganir af lánum heimilanna.

Reykjavík hefur fyrir löngu glatað því óskoraða forystuhlutverki sem hún áður hafði meðal íslenskra sveitarfélaga. Sjálfstæðisflokkurinn stýrði Reykjavík samfleytt frá 1930 til 1994, ef undan eru skilin fjögur ár. Allan þann tíma var atvinnulífið í borginni hið blómlegasta á landinu. Til forystu Sjálfstæðisflokksins í borginni völdust viðurkenndir hæfileikamenn sem sóttu styrk sinn langt út fyrir raðir flokksmanna. Reykjavík var í fararbroddi í hvaða málaflokki sem var og borgarstjórn hafði forystu um stórframkvæmdir á borð við hitaveitu og vatnsaflsvirkjanir sem urðu forsenda öflugs atvinnulífs og lífsgæða. Á sama tíma voru skattar lágir og grunnþjónustu við borgarana vel sinnt.

Allir skattar og öll gjöld eru nú í hæstu hæðum í borginni og lítt er hugað að skilyrðum atvinnurekstrar. Borgaryfirvöld vega beinlínis að atvinnulífi með ýmsum aðgerðum, til að mynda með andstöðu sinni við Reykjavíkurflugvöll. Að ekki sé minnst á samkomulag borgaryfirvalda við ríkið um að ekki verði ráðist í neinar samgöngubætur í borginni til ársins 2022. Kostnaður við yfirstjórn margfaldast á sama tíma og þjónusta við borgarana er skorin niður og viðhaldi eigna er varla sinnt.

Glundroði, óráðsía og sukk eru þau orð sem lýsa best núverandi stjórnarháttum í ráðhúsinu. Reykvíkingar eiga betra skilið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.