Show MenuHide Menu

Betri Sæbraut

Í Morgunblaðinu 8. júní síðastliðinn birtist áhugavert viðtal við Halldór Jónsson, einn reyndasta flutningabílstjóra landsins, en tilefni viðtalsins voru miklar tafir á leiðinni milli Sundahafnar og Granda vegna fjölda umferðarljósa og vanstilltra í þokkabót. Þessi leið liggur að mestu eftir Sæbraut. Hún var lögð í tíð sjálfstæðismanna í borgarstjórn og var feikilega dýrt mannvirki, enda að stórum hluta á uppfyllingu. Sæbrautin var umfram allt hugsuð sem tenging við miðborgina, en ljóst er að hún gæti þjónað því hlutverki mun betur.

Í viðtalinu segir Halldór meðal annars: „Þetta er stofnbraut en ég þarf að stoppa á nánast öllum umferðarljósum, þó ég aki á löglegum hraða.“ Borgaryfirvöld hafa sýnt lítinn vilja til að taka á þessum vanda og í rauninni vilja þau ganga enn lengra til að tálma umferð. Uppi eru áform um að hægja mjög á umferð um Geirsgötu og Mýrargötu, en til stendur að reisa íbúðabyggð á Miðbakka, þétt upp við Geirsgötuna. Lengi var rætt um að Geirsgata færi í stokk eða þá að henni yrði lyft upp á brú, en leyfar þeirrar hugmyndar má sjá á tollstöðinni við Tryggvagötu.

Í fyrirliggjandi aðalskipulagsdrögum vantar sárlega framtíðarlausn á umferðarvandanum á þessum slóðum, enda afar brýnt að greið leið sé fyrir flutningabíla til og frá athafnasvæðum við gömlu höfnina og út í Örfirsey. Sömuleiðis að gott aðgengi sé frá efri byggðum borgarinnar að verslun og þjónustu í miðbænum. Framtíðartenging gæti til að mynda falist í framlengingu Sæbrautar út fyrir hafnarmynnið og þá með vindibrú yfir innsiglinguna. Slíkt mannvirki gæti boðið upp á stóraukna starfsemi úti í Örfirisey og þá einnig á uppfyllingum út í Akurey. Að sama skapi ætti til framtíðar litið að láta mislæg gatnamót leysa af hólmi öll umferðarljós á Sæbraut.

En á meðan borgarsjóður er galtómur og ekki er gert ráð fyrir neinu vegafé til Reykjavíkur er nauðsynlegt að grípa til annarra ráðstafana. Fyrir það fyrsta þarf að samstilla umferðarljósin á Sæbraut. Brautin er svokallaður „T-leggur“ frá Kleppsvegi að Hörpu, en engin gata sker hana á öllum þeim kafla og þá er jafnlagt milli þeirra gatnamóta sem liggja meðfram Skúlagötu. Þetta skapar enn betri möguleika á samstillingu ljósa, þannig að alltaf megi komast á „grænni bylgju“ þann kafla. Með þessu ynnist mikið – mengun myndi snarminnka með minni eldsneytisbruna og þar með minni kostnaði, minna slit yrði á dekkjum, bremsuborðum og götum, auk þess að  umferðin gengi mun hraðar fyrir sig. Með þessu móti mætti hæglega hækka hámarkshraðann upp í 80 km/klst en hann er nú 60, án þess að slysahætta yrði meiri og þannig auka hagkvæmni Sæbrautar til muna. Að sama skapi væri með þessu hægt að létta á umferð um aðrar stofnbrautir, svo sem Miklubraut og Kringlumýrarbraut.

Þá væri rétt að fækka gatnamótum Sæbrautar og taka af ljós á nokkrum stöðum. Hægt er að hugsa sér að tekið verði fyrir vinstribeygjur úr Dugguvogi og af Langholtsvegi, auk þess að loka gatnamótum við Kirkjusand og Höfðatún, að minnsta kosti á álagstímum.

Þær hugmyndir sem hér eru reifaðar fela ekki í sér stórkostleg útgjöld fyrir borgarsjóð eða Vegagerðina en geta hins vegar orðið til að bæta verulega umferðarflæði í höfuðborginni með öllum þeim þjóðhagslega ávinningi sem því fylgdi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.