Show MenuHide Menu

Opið bréf til stjórnarmanna Strætó bs.

Með vísan til 1. mgr. 7. gr. laga um fólksflutninga og farmflutninga á landi, nr. 73/2003, hefur Vegagerðin veitt landshlutasamtökum sveitarfélaga einkaleyfi til skipulagningar almenningssamgangna á landi. Veiting sérleyfa hefur síðan verið boðin út á grundvelli laga um opinber útboð, nr. 84/2007.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Samtök sveitarfélaga á Austurlandi, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa öll farið þá leið að fela Strætó bs. umsjón með útboðum einkaleyfa til almenningssamgangna á sínum svæðum. Umsjón með þessari starfsemi var hins vegar aldrei boðin út, heldur færð yfir til Strætó bs. án útboðs.

Strætó bs. hefur nær undantekningalaust falið einu fyrirtæki, Hópbílum hf., umsjón með þessum akstri. Þegar aðrir aðilar á markaðnum hafa boðið betur í verk heldur en umrætt fyrirtæki, hafa útboðsaðilar virt þau tilboð að vettugi og gengið til samninga við Hópbíla hf. Útboðin eru sniðin að þörfum þessa eina fyrirtækis og öðrum aðilum þannig gert ókleift að bjóða í flutningana á jafnréttisgrundvelli. Í ofanálag hafa Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi bætt við samninga sína við Hópbíla hf. útboðsskyldum leiðum. Í raun er skilinn eftir opinn reikningur á opinbera aðila.

Nýlega sendi lögmaður fyrirtækis í eigu félagsmanns í Félagi hópferðaleyfishafa erindi til Strætó bs. þess efnis að veittar verði upplýsingar um þessi mál og þykir rétt að árétta þá kröfu við stjórnarmenn Strætó bs.:

1. Hversu háar fjárhæðir hefur Strætó bs. greitt Hópbílum hf. eða félaga í eigu sömu aðila á árunum 2006–2012, sundurliðað eftir samningum og árum?

2. Hversu mikið er áætlað að Strætó bs. verji til sama fyrirtækis á árinu 2013, skipt niður eftir samningum?

3. Hafa aðrir aðilar, svo sem einstök sveitarfélög eða landshlutasamtök þeirra, varið fjármunum beint til Hópbíla hf.?

4. Samkvæmt samningi ríkisins við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur Vegagerðin skuldbundið sig til að greiða 900 milljónir árlega til reksturs almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu fram til ársins 2022. Með hvaða hætti er tryggt að þessum fjármunum sé ekki varið til niðurgreiðslu á almenningssamgöngum utan höfuðborgarsvæðisins?

5. Nýverið komst Héraðsdómur Suðurlands að þeirri niðurstöðu að samningur Hópbíla hf. án útboðs hafi verið ólögmætur gerningur af hálfu Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, en kærunefnd útboðsmála hafði komist að sömu niðurstöðu. Starfsmenn Strætó bs. höfðu talsverð áhrif á það ferli og á val á bjóðendum. Hvernig hyggst Strætó bs. axla ábyrgð á umræddu lögbroti?

Síðustu áttatíu árin hafa einkaaðilar sinnt áætlunarflutningum á landi með miklum myndarbrag. Þessa starfsemi hafa fyrirtæki og einstaklingar í atvinnugreininni byggt upp og viðhaldið, meðal annars með miklu markaðsstarfi erlendis. Um þessar mundir eru landshlutasamtök sveitarfélaga að taka með valdi allar almenningssamgöngur og öðrum aðilum sem sinna hópferðum er hótað lögbanni, en landshlutasamtökin vilja til að mynda banna flutninga með erlenda ferðamenn í öllu því sem þau skilgreina sem „áætlunarflutninga“ og erlendum ferðamönnum er beint í strætisvagna. Flutningar þessa einokunarfyrirtækis eru meira að segja markaðssettir á ensku.

Ljóst er að Strætó bs. er komið langt út fyrir starfsvið sitt og skipuleggur flutninga á helstu ferðamannastaði yfir sumartímann og markmiðið er augljóslega að nota opinbert fé til að drepa niður alla frjálsa samkeppni.

Höft og ríkisforsjá virðast vera einkunnarorð stjórnmálamanna samtímans, nánast hvar í flokki sem þeir standa. Blómlegum fyrirtækjum í fólksflutningum sem starfað hafa í þeirri atvinnugrein um áratugaskeið skal vikið til hliðar og opinberri stofnun, Strætó bs., falin umsjón með öllum fólksflutningum. Brýnt er að fram fari heildarendurskoðun á lögum um fólksflutninga og við þá vinnu er nauðsynlegt að undið verði ofan af þeirri miðstýringu og allsherjarþjóðnýtingu fólksflutninga sem nú er að eiga sér stað.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 30. júlí 2013