Show MenuHide Menu

Vofa kommúnismans

Jónína Michaelsdóttir átti viðtöl við nokkra íslenska áhrifamenn í bók sem út kom á fimmtíu ára afmæli lýðveldisins árið 1994. Meðal viðmælenda hennar var Jónas heitinn Haralz bankastjóri. Í viðtalinu segir Jónas meðal annars frá störfum sínum fyrir nýbyggingarráð á árum nýsköpunarstjórnarinnar. Einar Olgeirsson, formaður Sósíalistaflokksins, taldi það fásinnu að tveir bæir, Hveragerði og Selfoss væru að byggjast með svo stuttu millibili. Hann áleit því rétt að slá þeim í einn bæ og hafði meira að segja fundið bæjarstæðið – miðja vegu milli þeirra tveggja – og þangað fór nýbyggingarráð í skoðunarferð. Grípum niður í samtalið við Jónas:

„Ekkert meira varð úr málinu, en þetta var dæmigert fyrir hugsunarháttinn á þessum tíma. Trúin á skipulag að ofan var algjör og þar með skilningsleysi á sjálfkrafa þróun“ og hann bætti svo við: „Gengið var út frá því að í kollinum á fáum sérfræðingum væri meira vit en í samanlögðum kollum alls fjöldans. Það sem gerðist af sjálfu sér var alltaf vitleysa.“

Mér hefur orðið hugsað til þessara orða Jónasar í ljósi fyrirliggjandi aðalskipulags Reykjavíkur sem gilda á til ársins 2030. Þar er gert ráð fyrir að flugvöllurinn hverfi þvert á skoðun borgarbúa sjálfra og þvert á þarfir atvinnulífsins. Áætlað er að þrengja að höfninni þegar fyrir liggur að mikil tækifæri eru í hvers kyns hafnsækinni starfsemi. Áætlanir eru uppi um að torvelda bílaumferð á sama tíma og mikill meirihluti borgarbúa kýs að ferðast með eigin bíl. Og þá á ekki að byggja eitt einasta sérbýli í Reykjavík til ársins 2030 á sama tíma og kannanir sýna að mikill meirihluti fólks kysi helst að búa í slíku húsnæði.

Skipulagshyggjan er algjör í nútímanum, en þrettán af fimmtán borgarfulltrúum Reykvíkinga hafna sjálfkrafa þróun sem byggist á óskum, vonum og þrám borgaranna sjálfra. Þess í stað skal líf borgaranna skipulagt í þaula eftir fastmótuðum kennisetningum. Getur verið að vofa kommúnismans gangi enn ljósum logum?

Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn, 5. október 2013