Show MenuHide Menu

Húsafriðun á villigötum

Nú um áramótin tóku gildi lög um menningarminjar, sem fela meðal annars í sér að öll hús og mannvirki hundrað ára eða eldri skuli friðuð, en samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laganna er óheimilt að breyta, rífa eða flytja hús sem er hundrað ára eða eldri nema með leyfi ríkisstofnunnar, sem nefnist Minjastofnun Íslands. Lögin ganga raunar enn lengra því þar er einnig kveðið á um að eigendum húsa sem byggð voru 1925 eða fyrr sé skylt að leita álits Minjastofnunar með minnst sex vikna fyrirvara hyggist þeir breyta þeim, flytja þau eða rífa. Við þessa lagabreytingu urðu um 2500 hús sjálfkrafa friðuð nú um áramótin. Áður voru um 500 hús friðuð, en samkvæmt eldri lögum voru öll hús byggð fyrir árið 1850 friðuð.

Friðun húss hefur í för með sér stórkostlegt inngrip í eignarrétt sem varinn er af 72. gr. stjórnarskrár, en eiganda friðaðrar fasteignar er meira að segja óheimilt að framkvæma endurbætur eða sinna nauðsynlegu viðhaldi nema með leyfi Minjastofnunar, en sækja þarf um leyfi með minnst sex vikna fyrirvara. Brot á lögunum varða við 177. gr. almennra hegningarlaga, þ.e. fangelsi allt að þremur árum.

Markmið nýrra laga um minjavernd er að „stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða“. Sum gömul hús hafa sannarlega menningar- og sögulegt gildi, en flest ekki. Meginþorri bárujárnsklæddra timburhúsa miðbæjar Reykjavíkur var til að mynda byggður af miklum vanefnum og með allsherjarfriðun húsa hundrað ára og eldri er gengið freklega á mannréttindi húseigenda. Það að hlutir séu gamlir gerir þá ekki sjálfkrafa að merkilegum minjum með sögulegt gildi. Hundrað ára reglan er ekki rökstudd að neinu marki í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum.

Það er bæði eðlileg og sanngjörn krafa að í málum sem þessum sé gætt meðalhófs og að eigendur friðaðra húsa hafi að minnsta kosti frjálsar hendur um minniháttar breytingar til að hámarka notagildi. Flest þeirra húsa sem orðin eru hundrað ára og eldri hafa tekið miklum breytingum svo sem með nýrri klæðningu, nýjum gluggum, viðbyggingum og tilfæringum innanhúss. Nú í sumar tóku stjórnvöld forskot á lögin og meinuðu eiganda hússins við Fríkirkjuveg ellefu að framkvæma minniháttar breytingar á stiga innanhúss. Sú breyting hefði aukið notagildi hússins mikið fyrir eigandann, en ekki valdið varanlegu tjóni á byggingunni.

Íslensk stjórnvöld, sem skipa fyrir um friðun húsa, hafa sjálf umturnað gömlum friðuðum húsum í eigu ríkissjóðs. Þannig var skipulagi Safnahússins við Hverfisgötu nýlega umbylt og ekki eru mörg ár síðan allar innréttingar voru rifnar niður í Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg og settar upp nýtískulegar. Og ekki nema eðlilegt að húsum sé breytt, þau færð til og ný reist í staðinn til að koma til móts við nýja tíma og nýjar þarfir.

Á umliðnum árum hefur verið gengið alltof langt í friðun húsa. Húsin neðst á Laugavegi eru dæmi um hörmulegar afleiðingar ofstækis í þessum málum. Einn stjórnmálamaðurinn vildi endurreisa eitthvað sem hann kallaði „nítjándu aldar götumynd Laugavegar“. Sú götumynd er ekki til og hefur aldrei verið til, enda byggðist Laugavegurinn að mestu leyti á tuttugustu öldinni. Í þessum anda voru reist ónýt verslunarhús neðst á Laugavegi með háum þrepum og engum útstillingargluggum. Í umræddum smáhýsum er að auki svo lágt til lofts að hæfir ekki nútíma verslunarhúsnæði.

Og úr því að rætt er um menningarverðmæti þá eru þau ekki síður fólgin í atvinnustarfseminni en húsunum. Flestir Reykvíkingar muna eftir Reykjavíkurapóteki við Austurstræti, sem var elsta og eitt glæsilegasta fyrirtæki landsins með útskornum harðviðarinnréttingum. Hnignun miðborgarinnar varð þess valdandi að þetta fyrirtæki og mörg önnur gamalgróin stórveldi í verslun hurfu á braut. Fyrirtækin höfðu þjónað Reykvíkingum um áratugi, greitt skatta og skyldur, veitt fjölda manns atvinnu og sett svip sinn á borgina. Það má með skynsamlegum rökum segja að hin gamalgrónu fyrirtæki hafi haft meira menningarlegt gildi en húsin sem þau voru starfrækt í.

Rétt er að gæta meðalhófs í húsverndarmálum, ganga ekki of langt á mannréttindi fasteignaeigenda og huga sem best að notagildi húsa fyrir starfsemi á 21. öldinni. Þannig hlúum við best að þeim menningararfi sem er fólgin í gömlum húsum. Allsherjarfriðun húsa hundrað ára og eldri er hins vegar glórulaus frá sögulegu jafnt sem hagnýtu sjónarmiði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu.