Show MenuHide Menu

Magnús Skúlason á villigötum

Magnús Skúlason, formaður húsafriðunarnefndar, ritaði grein sem birtist í Morgunblaðinu 16. janúar síðastliðinn, þar sem hann svarar að nokkru grein minni frá 12. sm. Ég þakka Magnúsi fyrir skrif sín, sem um sumt eru greinargóð, en um annað fer hann villur vega. Magnús segir meðal annars í grein sinni að það sé rangt hjá mér að til viðhalds friðaðra húsa þurfi leyfi Minjastofnunar. Ég hvet Magnús til að kynna sér lögin betur, en í 31. gr. þeirra segir í 2. mgr.: „Við endurbætur og viðhald friðlýstra húsa og mannvirkja skal leita álits og ef til þarf leyfis Minjastofnunar Íslands með minnst sex vikna fyrirvara.“

Magnús nefnir enn fremur í greininni að mér „yfirsjáist“ að fyrrnefndri ríkisstofnun sé heimilt að afnema friðun húsa. Mér yfirsást ekkert í því efni. Sú aðferð sem hér er notuð er að mínu viti einfaldlega röng sé tekið mið af meðalhófsreglunni. Það ætti að standa upp á stjórnvöld að rökstyðja ákvörðun sína um friðun, en ekki friða allt og gefa síðan stjórnvöldum færi á að afnema friðun – að geðþótta embættismanna. Og ég segi geðþótta, því „reglur“ í þessu efni eru mjög matskenndar, loðnar og teygjanlegar. En í áranna rás hafa ýmsar furðulegar ástæður verið gefnar fyrir því að ekki megi ráðast í framkvæmdir í miðbænum og húsafriðunarfólk er sumt hvert ótrúlega útsjónarsamt í að búa til röksemdir fyrir friðun. Margar röksemdanna eru svo langsóttar að líkega er það tilfinningasemin ein sem ræður för.

Líkt og ég nefndi í fyrri grein minni er hundrað ára reglan ekki rökstudd að neinu marki í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um menningarminjar. Þar er aðeins nefnt að með henni fáist „samfella í húsafriðun“. Það er ákaflega veik röksemd til að takmarka verulega eignarheimildir þúsunda manna. Og höfum hugfast að oft er umrædd fasteign megineign viðkomandi manna og lífsafkoma þeirra háð hagnýtingu fasteignarinnar. Þrátt fyrir að til sé húsafriðunarsjóður, þá er sú eignaupptaka sem felst í friðuninni nánast bótalaus. Hér er í reynd um svo alvarlegt inngrip í eignarheimildir að ræða að rétt væri að öll fasteignagjöld af friðuðum húsum rynnu í sérstakan sjóð sem notaður yrði til viðhalds þeirra, en nokkur fyrirtæki hafa sérhæft sig í endurbótum gamalla húsa og staðið að því með miklum myndarbrag.

Magnús nefnir enn fremur að friðun húss feli í sér „viðurkenningu á byggingarsögulegu og/eða fagurfræðilegu gildi byggingar“. Hvað sem líður persónulegri skoðun Magnúsar á þessu efni er ljóst að húseigendum er enginn greiði gerður með friðun húss, sem takmarkar eignarheimildir þeirra stórkostlega og rýrir þar með verðgildi eigna.

Magnús heldur því enn fremur fram að verslun við Laugaveg njóti góðs af gömlum húsum. Gömul hús geta sannarlega sum hver verið falleg, en flest timburhús við Laugaveginn þjóna illa hlutverki sínu sem verslunarhús, eru jafnvel staðsett milli hárra brunagafla og njóta sín ekki. Hvergi við Laugaveg má finna myndarlegan heildarsvip gamalla húsa og gömlu húsin þjóna mörg hver versluninni afar illa. Til að komast upp í verslunarplássið þarf jafnvel að klífa mörg þrep eða ganga ofan í kjallara, lágt er til lofts, almenn þrengsli, loftræsting léleg og nútímasjónarmið um brunavarnir og aðbúnað starfsfólks víðsfjarri.

Ofstæki í húsafriðun hefur um langt árabil verið dragbítur á þróun og uppbyggingu verslunar í miðbænum. Og með ofstæki á ég við hugmyndir á borð við allsherjar „byggðamynstursfriðun“ Laugavegar sem Guðrún Ágústsdóttir beitti sér fyrir á sínum tíma þegar hún var borgarfulltrúi. Öfgar í húsafriðun hafa átt stóran þátt í að hrekja stórar og rótgrónar verslanir burt úr bænum. Nær væri að stjórnvöld stuðluðu að sátt milli uppbyggingarsinna og friðunarsinna í þessum efnum. Ný hús mega til dæmis gjarnan hafa klassískt yfirbragð og bera einkenni fyrri byggðar. Húsin á horni Túngötu og Aðalstrætis eru dæmi um vel heppnaða framkvæmd af þessu tagi.

Húsafriðun er á villigötum í nútímanum. Ofstæki húsafriðunarsinna er jafnvont og ofstæki uppbyggingarsinna sem fyrir hálfri öld vildu rífa allan gamla bæinn.